Heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright.

9. desember 2019

Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. hlaut heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright í ár fyrir brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og erfðum þeirra.
Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem afhenti verðlaunin í Þjóðminjasafninu.

Verðlaunin eru árlega veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.

Vilmundur hefur ásamt samstarfsfólki nýtt nákvæm og ítarleg gögn um arfgerðir hjá stórum hópi landsmanna til þess að skoða erfðavísa sem hafa áhrif á líkindi á flóknum en algengum langvarandi sjúkdómum, eins og hjarta- og æðasjúkdómum.

Niðurstöður úr rannsóknum Hjartaverndar hafa enn fremur lagt grunninn að þekkingu á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og verið undirstaða markvissra forvarna gegn þessum sjúkdómum. Út frá rannsóknunum hefur enn fremur verið þróaður áhættureiknir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma sem er aðgengilegur á netinu.

Sjá nánar hér