Tölvusneiðmyndtæki
00/00

Reykjavíkurrannsókn.

Í lok nóvember 1967 komu fyrstu gestirnir í Hóprannsókn Hjartaverndar til skoðunar í Rannsóknarstöð Hjartaverndar í Lágmúla 9. Þrjátíu árum síðar, í nóvember 1997, komu svo síðustu einstaklingarnir sem valdir voru í þessa hóprannsókn til skoðunar á stöðinni.

Þar með lauk gagnasöfnun umfangsmestu hóprannsóknar sem gerð hefur verið hér á landi. Hér verður gerð nokkur grein fyrir þessari rannsókn og öðrum rannsóknum sem gerðar hafa verið á Rannsóknarstöð Hjartaverndar á þessu þrjátíu ára tímabili.

Rannsóknarstöðin reist

Hjartavernd – landssamtök hjarta- og æðaverndarfélaga á Íslandi – var stofnuð 1964 að frumkvæði Sigurðar Samúelssonar, prófessors. Í lögum samtakanna segir m.a. „Tilgangur samtakanna er barátta við hjarta- og æðasjúkdóma, útbreiðslu þeirra og afleiðingar. Í baráttunni við þessa sjúkdóma hyggjast samtökin m.a. beita þessum ráðum: … að stuðla að auknum rannsóknum á þeim hérlendis.“ Í samræmi við þetta markmið var ákveðið að koma á fót sérstakri rannsóknarstöð og framkvæma þar umfangsmikla hóprannsókn til að kanna m.a. útbreiðslu hjarta- og æðasjúkdóma hér á landi og finna helstu áhættuþætti þeirra svo hægt yrði að beita árangursríkum forvörnum. Efnt var til almennrar fjársöfnunar sem tókst það vel að hægt var að kaupa hæð í nýbyggðu húsi að Lágmúla 9, innrétta hana og búa tækjum. Var rannsóknarstöðin tilbúin til notkunar haustið 1967.

Tækjabúnaður – fyrsti sjálfvirki efnamælir á Íslandi

Lögð var áhersla á að búa stöðina tækjum af bestu gerð. Fyrsti sjálfvirki efnamælirinn á Íslandi AutoAnalyzer I (Technicon) var keyptur fyrir efnarannsóknastofu stöðvarinnar. Hann var búinn tveim efnagreiningarásum sem hvor um sig annaði um 60 efnagreiningum á klukkustund. Þessi efnamælir reyndist mjög vel og var í notkun í 18 ár. Önnur tæki voru m.a. röntgenmyndavél, hjartalínuritstæki, öndunarmælar, þrekhjól o.fl. Var útbúnaður og skiplag stöðvarinnar miðað við það að hægt væri að rannsaka um 30 einstaklinga á hverjum degi.

Starfsfólk árið 1997

Á Rannsóknarstöð Hjartaverndar voru 23 starfsmenn, flestir í hlutastörfum þannig að stöðugildi voru 13. Starfsmannafjöldinn var svipaður frá upphafi. Það var ómetanlegur styrkur fyrir rannsóknarstarfsemina að sömu starfsmennirnir unnu af miklum áhuga og samviskusemi árum eða áratugum saman við stöðina. Þetta tryggði áreiðanleika á niðurstöðum rannsókna og auðveldaði allan samanburð frá einum tíma til annars.

Hóprannsókn skipulögð

Árið 1965 hafði verið ákveðið að framkvæma umfangsmikla hóprannsókn m.t.t. hjarta- og æðasjúkdóma. Formaður Hjartaverndar, próf. Sigurður Samúelsson, og Ólafur Ólafsson, læknir, sem hafði verið ráðinn yfirlæknir rannsóknarstöðvarinnar, áttu viðræður við Dr. Zbynek Pisa, forstöðumann Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Kaupmannahöfn, og aðstoðarmenn hans. Veittu þeir ýmis ráð um framkvæmd hóprannsóknarinnar. Einnig styrkti stofnunin námsdvöl Ólafs Ólafssonar við London School of Hygiene and Tropical Medicine til að kynna sér aðferðir við faraldsfræðilegar rannsóknir hjarta- og æðasjúkdóma. Vorið 1967 voru síðan ráðnir aðstoðarlæknir (Nikulás Sigfússon), lífefnafræðingur (Þorsteinn Þorsteinsson) og ráðgjafar í tölfræði (Ottó J. Björnsson, tölfræðingur) og tölvuvinnslu (Helgi Sigvaldason, lic. tech.). Þessir aðilar ásamt próf. Davíð Davíðssyni, yfirlækni rannsóknarstofu, unnu síðan að skipulagningu hóprannsóknarinnar og var þeirri vinnu lokið um haustið 1967. Til rannsóknar voru valdir 16 árgangar karla og kvenna á Reykjavíkursvæðinu á aldursbilinu 34-61 árs. Síðar var bætt við hóprannsóknina 12 árgöngum, þannig að hún náði til allra karla sem fæddir eru 1907-1934 og allra kvenna fæddra 1908-1935. Alls voru þetta 14.925 karlar og 15.873 konur eða samtals 30.798 manns. Þessum hóp var skipt niður í 6 minni hópa eftir ákveðnum fæðingardögum (tæplega 3000 manns í hverjum hóp) og hópunum boðið til rannsóknar samkvæmt fyrirkomulagi.

Framkvæmd hóprannsóknarinnar

Í öll þau ár sem rannsóknin stóð var lögð áhersla á að framkvæma mælingar á sama hátt, þ.e. að vinna eftir stöðluðum aðferðum en þetta er nauðsynlegt vegna samanburðar frá einum tíma til annars. Rannsóknar-„prógrammið“ var óbreytt allan rannsóknartímann. Lögð var áhersla á athugun á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Heilsufarssaga var könnuð með sérstökum spurningalista, á rannsóknarstöðinni voru gerðar ýmsar mælingar (sjá töflu I) og loks fór fram læknisskoðun. Þátttakendur í hópskoðuninni komu tvisvar á rannsóknarstöðina, fyrst voru tekin próf og gerðar mælingar, niðurstöður voru tilbúnar nokkrum dögum síðar og kom þá gesturinn í læknisskoðun.

Rannsóknarþættir – Hóprannsókn Hjartaverndar

  1. Spurningalisti um heilsufar
  2. Rannsóknir:
    1. Hæð
    2. Þyngd
    3. Beinmælingar
    4. Þykkt húðfellinga
    5. Öndunarpróf
    6. Augnþrýstingur
    7. Blóðþrýstingur
    8. Hjartalínurit (áreynslu hjartalínurit)
    9. Röntgenmynd (hjarta og lungu)
    10. Kólesteról
  3. Læknisskoðun

Fyrstu tölvuskráðu sjúkraskýrslur

Frá upphafi voru allar niðurstöður hóprannsóknarinnar tölvuskráðar, og tölvuskráð sjúkraskrá var hönnuð þegar í upphafi rannsóknarinnar, – hin fyrsta hér á landi. Í þessa sjúkraskrá voru færðar sjúkrasaga, niðurstöður prófa og rannsókna, niðurstöður læknisskoðunar og sjúkdómsgreiningar og ráðleggingar ef einhverjar voru. Afrit sjúkraskrár var send heimilis- eða heilsugæslulækni og þátttakanda var vísað til þeirra ef frekari rannsóknar eða meðferðar var þörf þar sem meðferð var ekki veitt á Rannsóknarstöð Hjartaverndar.

Gæðaeftirlit

Það er grundvallaratriði við langtímarannsóknir eins og hóprannsókn Hjartaverndar að rannsóknaraðferðir séu staðlaðar og skekkjumörk þeirra séu þekkt. Því hefur frá upphafi verið lögð mikil áhersla á allt gæðaeftirlit. Blóðfitumælingar hafa verið undir eftirliti alþjóðlegra viðmiðunarstöðva (Center for Disease Control, Atlanta, USA og World Health Organization Lipid Reference Laboratory, Prag), sömuleiðis túlkun hjartalínurita (World Health Organization Reference Centre for ECG coding, Hungarian Institute of Cardiology, Budapest) o.fl. Mælitæki eru yfirfarin og prófuð reglulega. Áreiðanleiki spurningalista hefur verið metinn með ýmsum aðferðum. Með nákvæmu gæðaeftirliti er reynt að tryggja að niðurstöður rannsókna séu sem réttastar og sambærilegar frá einum tíma til annars.

Aðrar hóprannsóknir Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar

Fljótlega eftir að stöðin tók til starfa var ákveðið að bjóða öllum Íslendingum sem búsettir voru utan Reykjavíkursvæðisins og voru á aldrinum 41-60 ára til skoðunar. Var í þessu skyni komið upp rannsóknarstöðvum sem störfuðu tímabundið víða um land. Heilsugæslulæknar og sjúkrahúslæknar veittu í þessu sambandi ómetanlega aðstoð. Þó að nokkurt hlé hafi orðið á þessum rannsóknum vegna fjárskorts, tókst þó að ljúka skoðun í öllum fjölmennustu sýslum landsins. Það fengu um það bil 85% Íslendinga á aldrinum 41-60 ára boð frá Hjartavernd.

MONICA-rannsóknin

Síðan 1981 hefur Rannsóknarstöð Hjartaverndar tekið þátt í fjölþjóðlegri rannsókn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á hjarta- og æðasjúkdómum svonefndri MONICA-rannsókn. Þessari rannsókn er ætlað að leiða í ljós áhrif ýmissa áhættuþátta á tíðni hjarta- og æðasjúkdóma (kransæðastíflu og slags) svo unnt verði að beita forvörnum á árangursríkari hátt en verið hefur. Þessi rannsókn er fólgin í skráningu allra tilfella kransæðastíflu á landinu öllu meðal fólks á aldrinum 25-74 ára, en auk þess hafa farið fram 3 áhættuþáttakannanir (1983, 1988 og 1993) og athugun á meðferð kransæðastíflu 1983 og 1993. Í rannsókninni taka þátt 27 þjóðir með 53 rannsóknarstöðvar. Rannsóknin nær til 12 milljón manna og er langstærsta faraldsfræðilega rannsókn sem gerð hefur verið til þessa. Ísland hefur þá sérstöðu í þessu sambandi að rannsóknin nær til heillrar þjóðar, í öðrum löndum er rannsóknin bundin við sérstök landssvæði eða borgir.

Rannsókn á ungu fólki

Hóprannsókn Hjartaverndar nær til fólks sem 1967 var á aldrinum 34-61 árs. Þegar niðurstöður varðandi áhættuþætti kransæðasjúkdóms lágu fyrir eftir fyrsta áfanga hóprannsóknarinnar varð ljóst að nauðsynlegt var að fá upplýsingar um þessa þætti meðal yngra fólks. Árið 1973 fór því fram úrtakskönnun á fólki á aldrinum 20-34 ára. Þessu fólki var síðan boðið aftur til rannsóknar 1983.

Öldrunarrannsókn árið 1991- 1997

Þegar síðasti áfangi Hóprannsóknar Hjartaverndar hófst voru yngstu þátttakendurnir orðnir 57 ára en þeir elstu 84 ára. Ákveðið var að nota tækifærið í þessum áfanga og rannsaka sérstaklega ýmis konar heilsufarsleg og félagsleg atriði sem sérstaklega tengjast öldruðu fólki. Björn Einarsson, sérfræðingur í öldrunarsjúkdómum, var ráðinn til stöðvarinnar og annaðist hann framkvæmd þessarar rannsóknar. Öllum þátttakendum í hóprannsókninni sem orðnir voru 70 ára var, auk venjulegra rannsókna hóprannsóknarinnar, boðið upp á ýmis konar sérhæfðar rannsóknir. Megintilgangur þessarar rannsóknar er að kanna hvort elliglöp (Alzheimer sjúkdómur) stafi af æðakölkun í heilaæðum. Þessi rannsókn hófst 1991 og síðasti þátttakandinn kom til skoðunar í nóvember 1997.

Rannsóknir á fólki utan hópskoðana

Á rannsóknarstöðina hefur á hverju ári komið talsverður hópur fólks sem þangað er vísað til rannsóknar af læknum eða leitar sjálft vegna einkenna. Einnig hafa ýmis fyrirtæki kostað rannsóknir á starfsfólki sínu.

Samstarf við innlenda og erlenda aðila

Hóprannsókn Hjartaverndar er sérstök að því leyti að hún nær til mjög stórs hóps sem fylgt er eftir í langan tíma. Má því ætla að niðurstöður rannsóknarinnar gefi góða mynd af heilbrigðisástandi þjóðarinnar á hverjum tíma og þeim breytingum sem verða í tímans rás. Rannsóknin hefur því gefið möguleika á ýmis konar faraldsfræðilegum athugunum öðrum en þeim sem eru á hinni hefðbundnu rannsóknaráætlun Hjartaverndar. Rannsóknarstöð Hjartaverndar hefur átt samstarf við marga vísindamenn innanlands og utan um margvísleg rannsóknarverkefni. Nokkur helstu verkefnin af þessu tagi eru talin upp í töflu III. Alls hafa á annað hundrað vísindamenn á ýmsum sviðum unnið um lengri eða skemmri tíma að rannsóknarverkefnum í samvinnu við Rannsóknarstöð Hjartaverndar.

Rannsóknarstöð Hjartaverndar

Rannsóknaverkefni unnið í samvinnu við innlenda og erlenda aðila

  • MONICA-rannsókn
  • Alþjóðaheilbrigðisstofnunin
  • Community Control of Hypertension
  • Alþjóðaheilbrigðisstofnunin
  • Samanburðarrannsókn á Íslendingum og Vestur-Íslendingum í Kanada
  • Háskóli Íslands, Manitoba-háskóli, Texas Tech – háskóli
  • Rannsókn á gigtarþætti og liðagigt
  • Landspítali, Karólínska sjúkrahúsið
  • Rannsókn á skammvinnri heilablóðþurrð
  • Landspítali, taugasjúkdómadeild
  • Rannsókn á hjartavöðvasjúkdómi
  • Landspítali, lyflækningadeild
  • Rannsókn á hægra greinrofi Rannsókn á vinstra greinrofi
  • Landspítali, lyflækningadeild
  • Rannsókn á forhólfaflökti
  • Landspítali, lyflækningadeild
  • Rannsókn á járnbúskap
  • Landspítali, Rannsóknadeild í blóðmeinafræði
  • Rannsókn á beinþynningu
  • Borgarspítali, lyflækningadeild
  • Rannsókn á tannheilsu
  • Háskóli Íslands, tannlæknadeild
  • Rannsókn á háþrýstingi eftir fæðingareitrun
  • Landspítali, kvensjúkdómadeild
  • Rannsókn á fitusýrum
  • Landspítali, lífefnafræðideild; Borgarspítali, lyflækningadeild
  • Rannsókn á andoxunar-vítamínum og fjölómettuðum fitusýrum
  • Háskólinn í Basel, Hoffman La Roche
  • Skjaldkirtilsrannsókn
  • Lyflækningadeild Landspítalans, Aarhus Amtssygehus
  • Rannsókn í samvinnu við Krabbameinsskrá
  • Krabbameinsskrá
  • Mæling á blóðfitu
  • Manneldisráð
  • Mælingar á blóðfitum Apo A, B og (a)
  • Borgarspítali, lyflækingad., Rannsóknarstofa Háskólans í lífeðlisfræði
  • Rannsókn á blóðflæði í ganglimum
  • Rannsóknarstofa Landspítalans (æðaranns.)
  • NORA-samvinnuverkefni
  • Öll Norðurlöndin
  • Rannsókn á áfengisneyslu
  • Landspítalinn, lyflækningadeild
  • Rannsókn aldraðra á langlegudeildum
  • Borgarsp. lyflækningad.
  • Rannsókn á blóðþurrðarhelti
  • Borgarsp. lyflækningad.
  • Rannsókn á blóðstorkuþáttum
  • MONICA-rannsókn
  • Rannsókn á sykurþoli og blóðþrýsting
  • Karl Kristjánsson, læknir
  • Rannsókn á blóðþrýstingsmeðferð aldraðra karla
  • Landsp., lyflækningadeild
  • Rannsókn á AV-leiðnitruflun
  • Landspítali, lyflækningadeild
  • Rannsókn á týpu II sykursýki
  • Borgarspítali, lyflækningadeild
  • Rannsókn á lúpínuseyði
  • Háskóli Ísl., raunvísindadeild,Rannsóknarstofa Landspítalans í ónæmisfræði

Hvað hefur hóprannsóknin leitt í ljós?

Þegar Rannsóknarstöð Hjartaverndar tók til starfa haustið 1967 var lítið vitað um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hér á landi. Eftir fyrstu áfanga hóprannsóknarinnar hafði fengist mikilvæg visneskja um þessi mál. Í ljós kom að blóðfita (kólesteról) var með því hæsta sem gerðist meðal þjóða. Í flestum tilvikum vissi viðkomandi ekki um blóðfitugildi sitt því á þessum tíma voru blóðfitumælingar ekki orðnar almennar. Háþrýstingur – hækkaður bóðþrýstingur – var álíka algengur og meðal annarra þjóða, um það bil fimmti hver karl og kona reyndist hafa hækkaðan blóðþrýsting. Um það bil þrír af hverjum fjórum körlum vissu ekki um sinn háþrýsting þegar þeir komu til skoðunar og um helmingur kvenna var með áður óþekktan háþrýsting. Margir þeirra sem voru með þekktan háþrýsting voru ekki á fullnægjandi meðferð. Reykingar voru algengar bæði meðal karla og kvenna. Um 58% karla á aldrinum 45-64 ára reyktu en um 44% kvenna. Þessir þrír áhættuþættir – hækkuð blóðfita, hækkaður blóðþrýstingur og reykingar – skipta mestu máli fyrir hjarta- og æðasjúkdóma þó ýmsir aðrir þættir komi þar við sögu eins og offita, hreyfingarleysi, streita, sykursýki o.fl. Sú vitneskja sem fékkst úr fyrstu áföngum hóprannsóknarinnar um helstu áhættuþætti okkar Íslendinga er sá grundvöllur sem forvarnaraðgerðir undanfarna tvo áratugi hafa byggst á.

Hvernig hafa niðurstöður verið kynntar?

Í hóprannsókn Hjartaverndar hefur safnast saman geysilegt magn heilsufarsupplýsinga. Um það bil 850 atriði eru skráð um hvern einstakling í hóprannsókninni, samtals þannig um 25 milljón atriði. Lögð hefur verið áhersla á að kynna niðurstöður eins fljótt og hægt er bæði fyrir almenning og vísindamenn. Í kynningu fyrir almenning hafa fjölmiðlar verið notaðir sem og fræðslufundir af ýmsu tagi. Á vísindasviðinu hafa verið birtar um fjöldinn allur af vísindagreinum og rit og á læknaþingum bæði innanlands og utan verið flutt fjölmörg erindi. Margar doktorsritgerðir sem byggjast á efnivið Hjartaverndar hafa verið varðar og nokkrar eru í vinnslu.

Hafa áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma breyst?

Hóprannsókn Hjartaverndar var þannig skipulögð í upphafi að hægt yrði að fylgjast með þróun áhættuþátta og tíðni hjarta- og æðasjúkdóma hér á landi. Eftir 1970 hefur þróun helstu áhættuþátta verið mjög hagstæð. Blóðfita (kólesteról) hefur lækkað um 7% meðal karla og um 11% meðal kvenna. Blóðþrýstingur hefur lækkað verulega bæði meðal karla og kvenna. Þessi lækkun er án efa að verulegu leyti að þakka mjög bættri meðferð háþrýstings. Flest allir einstaklingar með hækkaðan blóðþrýsting vita nú af því og eru í eftirliti og meðferð hjá sínum heimilis- eða heilsugæslulækni. Mikil minnkun hefur orðið á tíðni reykinga, sérstaklega meðal karla. Hlutfall þeirra sem reykja hefur þannig lækkað úr 58% í um 25% meðal karla en úr 44% í um 30% meðal kvenna. Sumir aðrir áhættuþættir hafa breyst til batnaðar, þannig hefur reglubundin líkamsþjálfun aukist verulega sl. tvo áratugi.

Hjarta- og æðasjúkdómar á undanhaldi

Í hóprannsókn Hjartaverndar hefur verið fylgst náið með dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma en auk þess hefur tíðni kransæðastíflu -sem er algengasti hjartasjúkdómurinn- verið skráð nákvæmlega allt frá árinu 1981. Þessi skráning (MONICA-rannsókn) nær til allra karla og kvenna á landinu á aldrinum 25-74 ára. Hvaða breytingar hafa nú orðið á tíðni helstu hjarta- og æðasjúkdómanna? Samkvæmt MONICA-skráningunni lækkaði dánartíðni vegna kransæðastíflu um 53% meðal karla á tímabilinu 1981-1994 og heildartíðni kransæðastíflu lækkaði á sama tíma um 44%. Meðal kvenna lækkaði dánartíðnin á sama tíma um 32% og heildartíðnin (bæði lifandi og látnir) um 36%. Samkvæmt heilbrigðisskýrslum hefur dánartíðni vegna slags (heilablæðingar – blóðtappa í heila) farið jafnt og þétt lækkandi allt frá árinu 1950. Nemur þessi lækkun um 50% meðal karla en um 60% meðal kvenna. Það er þannig ljóst að tíðni helstu hjarta- og æðasjúkdómanna hefur lækkað verulega undanfarna tvo og hálfan áratug. Athugun sýnir að lækkunin á tíðni kransæðastíflu meðal karla hefur átt sér stað nokkrum árum á eftir lækkun áhættuþáttanna. Meðal kvenna hefur lækkunin á dánartíðni nokkurn veginn fylgt lækkuninni á áhættuþáttunum.

Ný hóprannsókn hafin – afkomendarannsókn

Fyrir nokkrum árum hófst undirbúningur að næstu hóprannsókn Hjartaverndar. Ákveðið var að einbeita kröftunum að því að rannsaka þátt erfða í tilkomu hjarta- og æðasjúkdóma. Á sviði erfðafræði hafa orðið miklar framfarir á síðustu árum og möguleikar á að hafa áhrif á þróun arfgengra sjúkdóma eru nú í augsýn. Til að nýta enn frekar þær upplýsingar sem nú þegar eru fyrir hendi úr Hóprannsókn Hjartaverndar var ákveðið að velja nýjan rannsóknarhóp á eftirfarandi hátt: Í rannsóknarhópnum voru börn þeirra einstaklinga í Hóprannsókn Hjartaverndar sem fengið hafa kransæðastíflu á tímabilinu 1967-1992. Alls eru þetta á sjötta þúsund einstaklingar. Til samanburðar er valinn annar hópur, börn einstaklinga í hóprannsókninni, sem ekki hafa fengið kransæðastíflu. Alls voru í afkomendarannsókn um 8.000 einstaklingar. Til að annast erfðafræðilegar rannsóknir var ráðinn sérfræðingur, dr. Vilmundur Guðnason, og hefur hann séð um að koma upp rannsóknarstofu í erfðafræði á Rannsóknarstöð Hjartaverndar.

Höfundur, Nikulás Sigfússon, dr.med. fyrrverandi yfirlæknir Hjartaverndar. 
Áður birt í Tímaritinu Hjartavernd, 34.árgangur, 1.tbl. 1997

Staðsetning Hjartaverndar

Staðsetning

Holtasmári 1, 2. hæð. 201 Kópavogur, Ísland Kt.: 600705-0590

Skoða á korti

Hafa samband við hjartavernd

Hafa samband

Opnunartímar hjartaverndar

Opnunartímar

  • Mán - Fös: 08:00 - 16:00
  • Helgar: Lokað
Holtasmári 1, 2. hæð., 201 Kópavogur, Ísland
Móttaka: 535-1800, Fax: 535-1801
Opnunartími í dag: 08:00 - 16:00
Fara efst á síðu