Vilmundur var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

4. janúar 2024

Vilmundur Guðnason var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag en fálkaorðan er æðsta heiðursmerki sem íslenska ríkið veitir mönnum.

Vilmundur hlýtur riddarakrossinn fyrir framlag til rannsókna og forvarna á sviði hjarta- og æðasjúkdóma.

Vilmundur er forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor í erfðafræði hjarta- og æðasjúkdóma við Læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur verið gestavísindamaður við Centre for Cardiovascular Genetics hjá Royal Free og University College í London og hjá Institute of Public Health við Háskólann í Cambridge.

Hann lauk námi í læknisfræði við Háskóla Íslands 1985 og doktorsnámi í sameindaerfðafræði við University College London 1995.

Rannsóknir Vilmundar hafa aðallega verið á sviði faraldsfræði og erfðafaraldsfræði og má þar nefna Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (Ages Reykjavík study) og Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar (Refine Reykjavík study).

Hann er höfundur og meðhöfundur að hundruðum vísindagreina sem birst hafa í virtum vísindatímaritum eins og Nature, Science, Cell, Nature genetics, JAMA, NEJM og Lancet svo nokkur séu nefnd og er númer 754 á heimslista Research.com árið 2023 yfir vísindamenn úr öllum greinum vísinda

Vilmundur hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi og komið að mikilvægum uppgötvunum á tilurð og þróun hjarta- og æðasjúkdóma og annarra krónískra sjúkdóma. Auk þessa hefur hann leiðbeint fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi, bæði hér á landi og erlendis.

Vilmundur hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, þar á meðal heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright og Nikkilä-minningarverðlaun Scandinavian Society for Atherosclerosis.