Fræðsla.

2. júlí 2019

Hér má finna útskýringar a helstu hugtökum sem tengjast hjarta- og æðasjúkdómum

Hér að neðan má sjá útskýringar á helstu hugtökum sem tengjast hjarta- og æðasjúkdómum.

Kólesteról – eða heildarkólesteról er ein tegund blóðfitu. Blóðfitu má skipta í heildarkólesteról, HDL-kólesteról, LDL-kólesteról og þríglýseríð. Það myndast í öllum frumum líkamans en einnig er visst magn af kólesteróli í fæðunni.
Kólesteról hækkar við fituríkan mat einkum dýrafitu en lækkar við grænmeti. Æskilegt er að heildarkólesteról sé undir 5.0 mmól/l.

HDL kólesteról – “HDL” eða “góða kólesterólið” er sá hluti kólesterólsins í blóði sem er tengdur HDL próteininu. HDL hreinsar kólesteról frá vefjum til lifrar sem losar sig síðan við kólesterólið út í gallið og meltingarveginn. Því er verndandi að hafa hátt magn af HDL kólesteróli í blóði. HDL hækkar við hreyfingu og neyslu á fiskiolíum (lýsi) en lækkar við reykingar. Æskilegt er að HDL kólesteról sé yfir 1,0 mmól/l hjá körlum og yfir 1,2 mmól/l hjá konum.

LDL kólesteról – LDL eða “slæma kólesterólið” er sá hluti kólesterólsins í blóði sem er tengdur LDL próteininu. Það getur síast inn í æðavegginn, hlaðist upp og valdið æðakölkun. Eins og við heildarkólesteról hækkar LDL við neyslu á fituríkum mat einkum dýrafitu en lækkar við neyslu á grænmeti. Æskilegt að LDL kólesteról sé undir 3 mmól/l hjá báðum kynjum.

Þríglyseríðar – Þríglýseríðar er forðafitan að ferðast í blóðinu. Þríglyseríðar stuðla að æðakölkun svipað og kólesteról í blóði gerir. Gildi þess í blóði er háð fæði. Eftir máltíðir, sérstaklega fituríkar máltíðir, hækkar gildi þess og nær hámarki eftir 2-3 klst. Gildið er hærra hjá of feitum en líkamleg áreynsla lækkar það. HDL kólesteról og þríglýseríð eru nátengd þannig að háir þríglýseríðar valda lágu HDL og öfugt. Háir þríglýseríðar auka hættu á sykursýki. Æskilegt er að þríglýseríðar séu undir 1,7 mmól/l.

Blóðsykur (glúkósi) – Glúkósi er mikilvægasti orkugjafi líkamans, sérstaklega fyrir heilann. Hormón halda þéttni glúkósa í blóði innan þröngra marka og eru áhrif insúlíns mikilvægust. Ef fastandi blóðsykur mælist yfir 7 mmól/l er viðkomandi með sykursýki. Ef fastandi blóðsykur er milli 6,1 og 6,9 er aukin áhætta á sykursýki. Ef nákominn ættingi er með eða hafði tegund tvö sykursýki eykst einnig hætta á sykursýki.

Blóðrauði (hemóglóbín) – Hemóglóbín er flutningsprótein í rauðu blóðkornunum sem bindur súrefnið. Aðalhlutverk hemóglóbíns er að flytja súrefni frá lungum til vefja líkamans.

Kreatínin – Er niðurbrotsefni úr vöðvum og mælikvarði á starfsemi nýrna.

Blóðþrýstingur er sá þrýstingur sem drífur blóðið áfram í slagæðunum. Ef þrýstingurinn er aukinn veldur það auknu álagi á slagæðarnar. Ef álagið er langvarandi kemur fram æðakölkun í slagæðavegginn. Sama gerist við annarskonar álag eins og frá blóðfitu eða reykingum. Mæld eru tvö gildi blóðþrýstings efri mörk (systóla) og neðri mörk (díastóla). Æskilegt er að efri mörk séu undir 140 mmHg en lægri mörk (díastóla) undir 90 mmHg. Bæði mörkin skipta máli en efri mörk hafa sterkari tengsl við áhættu á æðasjúkdómum.