Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar 2005-2006 er könnun á bæði vel þekktum áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma svo sem kólesteróli og blóðþrýstingi og á nýjum áhættuþáttum eins og þykkt hálsæða eða gerð persónuleika.
Könnunin var gerð á fyrirfram ákveðnu úrtaki sem valið var með slembivali. Haft var samband við þátttakendur í úrtakinu bréfleiðis og þeim boðinn tími. Sýnum þeirra sem það samþykktu var safnað í sérstakan lífsýnabanka Hjartaverndar. Starfsreglur lífsýnasafnins eru aðgengilegar á vef landlæknis.
Mældir voru ýmsir þættir í blóði sem tengjast áhættu fyrir hjartasjúkdóma eins og blóðfita (kólesteról, þríglýseríð, HDL-kólesteról) og blóðsykur.Úr sama blóðsýni var heilblóð, blóðvatn og erfðaefni (DNA) einangrað og geymt í lífsýnabanka Hjartaverndar. Erfðaefni var notað annars vegar til að meta framlag gena til áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma og hins vegar til að mynda viðmiðunarhóp í ýmsum erfðarannsóknum. Þátttakendum var frjálst að hafna þátttöku í þessum hluta rannsóknarinnar.
Gerð var ómskoðun af hálsæðum til að meta forstig æðakölkunar. Ómskoðun af hálsæðum er sársauka- og hættulaus þar sem ómsjá er lögð yfir hálsæðar og myndir teknar.
Einnig var stífni í æðakerfinu mæld en það er áhættuþáttur hjarta-og æðasjúkdóma.