Þessi hóprannsókn var meginverkefni rannsóknarstöðvarinnar á árinu 2000. Til hennar var boðið börnum þeirra þátttakenda í Hóprannsókn Hjartaverndar er fengið höfðu kransæðastíflu og til samanburðar börnum þátttakenda er ekki höfðu fengið kransæðastíflu. Erfðafræðinefnd annaðist gerð skráa yfir þessa afkomendur.
Í Afkomendarannsókn Hjartaverndar leitum við svara við þeirri spurningu hvort ýmsir þekktir áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma séu mismunandi eftir því hvort annað eða báðir foreldrar hafi fengið kransæðastíflu eða ekki.
Alls voru í þessari hópskoðun 7.958 einstaklingar, 5.351 í rannsóknarhóp og 2.607 í viðmiðunarhóp. Skipulagi þessarar rannsóknar var ítarlega lýst í síðustu ársskýrslum. Rannsóknin hófst í lok júní 1997 og í upphafi þessa starfsárs höfðu verið skoðaðir 1948 karlar og 2201 kona úr þessum hóp. Á starfsárinu voru skoðaðir 723 karlar og 599 konur. Þannig höfðu mætt til skoðunar 2671 karl og 2800 konur í lok starfsársins eða 5471 þátttakandi.
Á árinu sem framkvæmd rannsóknar hófst, ákvað SPRON (Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis) að styrkja Hjartavernd til að gera lokaátak í Afkomendarannsókn, því að í ljós kom þegar um helmingur þátttakenda hafði komið til rannsóknar, að afkomendur þeirra sem fengið hafa kransæðastíflu eru í mun meiri áhættu en þeir sem voru í viðmiðunarhóp.
Niðurstöður sem hér eru kynntar eru úr þeim hluta þýðisins sem hafði verið rannsakaður fyrir ágúst 1999. Þá höfðu 3383 afkomendur höfðu verið rannsakaðir 1563 karlar (1093 í tilfellahópi / 470 í viðmiðunarhópi) og 1820 konur (1235 í tilfellahópi /585 í viðmiðunarhópi)
Fyrstu niðurstöður úr rannsókninni birtust í tímaritinu Hjartavernd, árið 2000; 1 tbl.37.árg.
Kransæðastífla hjá foreldrum er ákvarðandi fyrir áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma í afkomendum eftir Margréti B. Andrésdóttur ásamt Gunnari Sigurðssyni, Helga Sigvaldasyni, Nikulási Sigfússyni, Ugga Agnarsyni og Vilmundi Guðnasyni.